Ferlið

Básabókun

Þú ferð inn á bókunarkerfið okkar: mitt Trendport til þess að bóka bás.

Þar velur þú leigutímabil sem hentar þér og þann bás sem þú vilt leigja og borgar fyrir hann í gegnum kortaþjónustu Korta.

Ath. básinn sem þú velur helst frátekinn í 15 mín. frá því að þú valdir hann. Ef ekki er greitt fyrir bókunina innan þess tíma verður bókunin ógild og einhver annar getur bókað básinn.

Hægt er að sjá uppröðun á básunum á yfirlitsmynd í skrefi 2 “Lausir básar”.

Næst smellir þú á “Bóka bás” ferð inn í "Mínar bókanir" og velur “Skoða” á bókuninni þinni.

Þar getur þú bætt inn bankaupplýsingunum þínum, skráð söluvarning þinn,, sett básinn þinn á afslátt og framlengt leigutímanum.

Ath. eftir að þú hefur sett inn stutta lýsingu og verð fyrir vöru þarf að smella á “Bæta við vöru” áður en þú setur næstu vöru inn.

Þegar þú hefur lokið við skráningu á þeim vörum sem þú ætlar að selja hjá okkur getur þú komið við hjá okkur og sótt strikamerki og verðmerkingarbyssu. Það flýtir fyrir uppsetningu á básnum ef þú ert búin að verðmerkja vörurnar þínar heima áður en þú mætir til okkar að setja básinn þinn upp.

Ef þú ákveður að setja básinn þinn á afslátt í kerfinu verður þú að setja upp afsláttarmiða, sem við útvegum, á básinn þinn (1 stk.) eða senda okkur skilaboð/tölvupóst og biðja okkur um að gera það fyrir þig.

Gott er að setja á afslátt þegar líða tekur á leigutímabilið.

Ath. Trendport útvegar þjófavarnir og er með öryggismyndavélar til þess að koma í veg fyrir þjófnað. Tekið skal fram að engin ábyrgð er tekin á neinum flíkum eða fylgihlutum sem fara í sölu hjá Trendport. Viðskiptavinum stendur til boða að nota þjófavarnir á dýrari flíkurnar sínar og mælum við alltaf með því.

Nánari upplýsingar má finna í skilmálum.

Uppsetning

Þú getur sett upp básinn þinn daginn áður en leigutímabilið þitt hefst, klukkustund fyrir lokun (kl. 17 á virkum dögum eða kl. 15 um helgar) EÐA við opnun (kl. 10 á virkum dögum eða kl. 12 um helgar) sama dag og leigutímabil þitt hefst.

Við prentum út strikamerki, útvegum þjófavarnir, herðatré, stærðarmerkingaperlur og S-hanka fyrir fylgihluti.

Næst hengir þú upp þær flíkur og fylgihluti sem þú vilt selja en það er alltaf hægt að koma og fylla á básinn á meðan leigutíma stendur.

Til að auka sölu mælum við með að hafa básinn þinn snyrtilegan, ekki of troðin og deila mynd af honum á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á því sem þú ert að selja.

Ekki er leyfilegt að stilla vörum upp út fyrir þinn bás nema spyrja um leyfi.

Sala

Eftir að þú hefur sett upp básinn sjáum við um rest. Við þjónustum viðskiptavini verslunarinnar og seljum vörurnar þínar fyrir þig. Þú getur fylgst með sölunni á þínu svæði og þannig séð hvaða vörur eru seldar/óseldar og hver heildarsalan er þá stundina.

Við mælum með að koma reglulega við til að snyrta til í básnum þínum og fylla á hann á meðan leigutíma stendur, en það eykur sölu.

Við mælum með að taka myndir af vörunum þínum og deila á samfélagsmiðlum, Trendport - til sölu, hópnum okkar á facebook og merkja okkur #trendportisland á instagram.

Bás tekinn niður

Dagssetningin sem básaleigu þinni lýkur er sú dagssetning sem þú verður að taka niður básinn þinn.

Básinn þarf að vera tómur í seinasta lagi 1 klst. fyrir lokun þ.e. kl.17 á virkum dögum en kl.15 um helgar, síðasta dag leigutímabilsins.

Komi til þess að starfsfólk Trendports þurfi að taka básinn þinn niður kostar það 4.000kr. Ef það var ekki búið að láta vita fyrir kl. 12 á hádegi sama dag og hann á að vera tæmdur. Hægt er að semja um að starfsfólk taki niður básinn fyrirfram og þá kostar það 2.000kr.

Hagnaður

Við lok leigutímabils millifærir Trendport út söluhagnaðinn inn á reikning og kennitölu sem gefin voru upp við bókun að frádregnum 20% þóknun sem dregin er sjálfkrafa frá samanlagðri heildarsölu. Hagnaður er alltaf greiddur inn á debetkortareikning básaleigjanda og er ekki hægt að semja um annað.

Bókari Trendport greiðir út söluhagnaður inn á reikning og kennitölu sem gefin voru upp við bókun að frádreginni þóknun sem dregin er sjálfkrafa frá samanlagðri heildarsölu. Bókanir eru eingöngu greiddar út virka daga og hefur bókari tvo virka daga til að greiða út söluhagnað. Hagnaður er ekki greiddur út nema bás hafi verið tæmdur.

Athugið að bankaupplýsingar færast ekki sjálfkrafa yfir í nýja bókun og þarf að skrá þær inn í hvern bás þótt viðkomandi hafi áður verið með bás hjá Trendport. Hagnaður er alltaf greiddur inn á debetkortareikning básaleigjenda og er ekki hægt að semja um annað.

Ef vara frá þér selst sem gleymdist að taka með heim eftir að básinn var tekinn niður og leigutímabili lauk færist sá hagnaður inn á þinn notanda sem inneign. Það er á ábyrgð básaleigjanda að fylgjast með hvort hann/hún eigi inneign hjá okkur og biðja um að hún verði millifærð þar sem það kemur ekki fram í kerfinu okkar eftir að tímabili lýkur. Útborgun af söluhagnaði verður að gerast innan 90 daga eftir að leigutímabili lýkur.